þriðjudagur, október 28, 2003

Jeg er toppen...

Jeg er enkel og grei,
alle liker meg.
Jeg er god og lett
med lite fett (25 g).

Finnes alltid til stede,
og blir ikke sur.
Jeg holder i maneder
i sval temperatur.

Jeg kan brukes til alt,
til kaffe og malt,
og deilig jeg smaker
til bær, frukt og kaker.

Rist meg litt,
og trykk meg pa toppen,
sa "har du meg der"
hva du enn har i koppen.

Vel bekomme!



Já víða leynist kveðskapurinn. Þetta fallega ljóð (sjálfsmynd sprauturjóma) er einmitt að finna utan á brúsa af Menkomel. Tók ég eftir þessu áðan þegar ég var að búa mér til görugan lærdómsdrykk, sem samanstendur af kaffi, Swiss Miss dufti með sykurpúðum og slúrk af ljóðskáldinu mikla.
Drykkurinn er fínn, bragðast eins og fínasta kakó og heldur mér vakandi við helvítis elsku stærðfræðina (enda hef ég ekki efni á að kaupa kók núna).

mánudagur, október 27, 2003

Í dag er ég kuldaskræfa.
Þess vegna sit ég inni í þykkri peysu, sjúskuðum joggingbuxum og les bloggið hennar Þórdísar, meirasegja langt aftur í tímann. Mér finnst gaman. Og vindurinn gnauðar fyrir utan... mér er soldið kalt á nefinu. Kannski ég nái bara í trefilinn?

laugardagur, október 25, 2003

Nú er ég búin á 8 vikna námskeiðinu mínu í Þrekhúsinu, léttist reyndar fáránlega lítið en slatti af sentimetrum fékk að fjúka og það skiptir nú mestu máli... fyrir utan það hvað ég er farin að geta gert margar armbeygjur, lyft þungum lóðum og get svo svarið það að ég er komin með six-pack einhvers staðar undir bumbunni :)
Mig langaði soldið á framhaldsnámskeið en núna fer námið í algjöran forgang. Það var satt að segja voða leiðinlegt að koma heim úr skólanum kl. 18, reyna að læra í klukkutíma, þurfa svo að fara út í Þrekhús, koma dauðþreytt heim kl. 21 og eiga eftir að læra fyrir morgundaginn... no more of that.

En já, í tilefni af námskeiðslokum fórum við leikfimihópurinn saman út að borða í gær á Austur-Indíafjelagið. Það var rosalega gott (ég vissi ekki að kjúklingur gæti verið svona mjúkur! og jógúrtsósan? ég hefði getað drukkið hana eintóma... með röri!) en líka ofboðslega dýrt. Ég kom út af veitingastaðnum slypp og snauð (en södd) og var á leiðinni heim þegar ég hitti Þuru og vinkonu hennar Dagnýju en þær voru á leiðinni á verkfræðinemadjamm á Gauknum. Ég fór með þeim og sat í dágóða stund og sötraði vatn (átti ekki einu sinni fyrir einum bjór þó það væri svaka tilboð á barnum) og spjallaði við Þuru. Það var frekar súr og sleazy stemmning þarna því þarna var slatti af liði sem var að koma úr vísindaferð og hafði verið að drekka síðan kl. 17 og var ótrúlega sauðdrukkið. Frekar skrýtið að upplifa þetta svona alveg edrú. Svo kom einn svona haugafullur karlmaður (eða strákgepill öllu fremur) og kleip mig í síðuna.
Mér var ekki skemmt.
En ég stefni nú alveg á að verða í svipuðu ástandi og þetta lið næsta föstudag því þá er vísindaferð (1. vísindaferð vetrarins!) hjá lyfjafræðinemum. Held það verði farið í Lyfju. Kannski fæ ég þá tækifæri á að hefna mín og get klipið einhverja stráka í bossann.
Svo þegar ég fór að huga að heimferð hringdi Svanhvít í mig og bauð mér að djojna sér og Steina á Nelly's en þau voru þar á einhverju íslenskudjammi. Ég kíkti aðeins á skötuhjúin (og sá líka aflitaðan selfyssing í ljósbláum hlýrabol með tribal tattú sem var alveg eins og glataði gaurinn í Atlas-auglýsingunum) en fór svo bara heim.

Annars leggjum við Atli, Steini og Svanhvít og margir fleiri af stað á eftir til Hveragerðis þar sem árshátið 10-11 mun fara fram á Hótel Örk og við Atli erum með herbergi og læti svo við gistum bara og höfum það næs. Það er því útlit fyrir fínan mat, fyllerí og almenna skemmtan í kvöld.... en Sveppi og Auddi verða veislustjórar. Vaddafokk?!?
En fyrst ætla ég að freista þess að klára eðlisfræðidæmi *blink*blink*

fimmtudagur, október 23, 2003

Merkilegt hvernig mannskepnan hugsar þegar hún fær frí.
Þegar maður fær frí ætlar maður aldeilis að:
-slappa af og djamma
-læra fullt og taka til

Verst hvað þetta tvennt fer illa saman. Yfirleitt endar það þá þannig að maður gerir bara annað hvort: ef afslappelsið verður ofan á fylgir samviskubit í kjölfarið og ef duglegheitin ráða för... þá hreinlega líður manni eins og maður hafi ekki fengið neitt frí, sem er leiðinlegt. Svona eru helgarnar hjá mér, yfirleitt lendi ég í samviskubitinu.
Annars er þessi færsla sérstaklega tileinkuð öllum MH-bloggurum og haustfríinu þeirra...

miðvikudagur, október 22, 2003

Vá, skil ekki hvernig ég fer að því að komast alltaf svona langt aftur úr í náminu, þrátt fyrir fögur fyrirheit. Núna er ég 2 dæmablöðum á eftir í stærðfræði og (úps) 6 dæmablöðum á eftir á efnafræði (við fáum eitt dæmablað á viku í hvoru fagi). Samt eru þetta alls ekki erfið dæmi en það tekur tíma að vinna þau upp og tími er eitthvað sem ég hef ekki þessa dagana... en svona var þetta nákvæmlega hjá mér í MH.
Ég var alltaf a.m.k. 3 vikum á eftir í stærðfræði þannig að það þýddi voða lítið fyrir mig að fylgjast með í tímum, ég var einfaldlega ekki komin þangað sem kennarinn var að blaðra en skrifaði það þó niður "for future reference". Svo lærði ég allt bara heima hjá mér og gekk mjög vel... en ég var samt alltaf nokkrum vikum á eftir. Ég er líka haldin mjög pirrandi fullkomnunaráráttu varðandi námið, áður en ég reikna dæmi 5 finnst mér ég verða að vera búin að reikna dæmi 1, 2, 3 og 4. Og ef ég skil ekki dæmi á ég rosalega erfitt með að byrja bara að reyna við næsta, heldur sit ég og grufla yfir sama dæminu í lengri tíma þar til ég skil það... og það kemur líka yfirleitt á endanum en þá er klukkan kannski orðin 3 um nótt og ég á eftir að reikna 20 dæmi í viðbót. Obbosí!
Já, ég held ég sé farin að skilja ágætlega hvers vegna ég dregst alltaf svona aftur úr... kjánaElín.

Annars er ég búin að eignast 5 barnabörn! Hundurinn okkar hann Rex er nefnilega orðinn pabbi og eignaðist 5 hvolpa með tíkinni Eldingu þann 17. október og þessi er bara sætastur (held að pabbi ætli að fá hann). Annars eru þessir hvolpar soldið merkilegir og þið getið lesið um það á blogginu hans pabba míns og skoðað fleiri myndir.

fimmtudagur, október 16, 2003

Memories

Ég var að taka til áðan og fann litla bók sem reyndist vera gestabók úr miklu partýi, sannkölluðu gömlu góðu Atlapartýi sem haldið var í Stigahlíðinni sælla minninga þann 10. júní 2000! Ég held þetta hafi verið partýið þegar allir strákarnir ákváðu að fara berir að ofan (og sumir að neðan) í fótbolta úti á lóðinni kl. 4 um nóttina, en allavega var þetta partýið sem Elín María og Fífí vöktu mikla lukku...
Margt er hérna mjög skemmtilegt og hérna kemur það úr bókinni sem læsilegt er:

,,Gestabók Sumarglaðningarfyllerísparty 10. júní 2000" (skrifað af Atla)
Eftirfarandi nöfn má finna innan um mikið krot:
Páll R
Fanney
Svanhvít
Gunni S. (the ultimate sexmachine!)
Þór (aka Tóti tiger)
Hildur
Þura (a Tom Jones lady, foxy lady)
Steini Tík
Matthildur Anna
Valdi
Orri Tómasson
Lilý
Agga ^mango^

KRISTÍN VALA (stórt hjarta) Bragi Már (og fullt af litlum hjörtum í kring, nema hvað)
Elín & hann Fífí = -9 (he is the man in my life)
Kristján Sigurðsson
Sissi mjög graða
(?? jú þetta er væntanlega partýið þar sem hann ældi í sófann og drapst svo)
Auk þess hefur Elín María skrifað nafnið sitt út um ALLT á síðunni, allavega 30 Elínar þar á ferð.
Einnig má lesa hin fleygu orð: ,,A gay day is my day" (Þuru rithönd) og ,,Thú veist thú fílar það!"

En á næstu síðu stendur nú bara það sætasta ever:

Elsku Atli... og Elín

Takk fyrir yndislegt partý.
Þetta teiti mun lifa í minningu okkar ævilangt.
Við njótum hverrar mínútu í návist þinni. Það eitt að vita af tilvist þinni fyllir okkar hjörtu af ómældri gleði.

Þínir auðmjúku vinir
(bíddu nú við! Nafninu Elín hefur greinilega verið bætt við á síðustu stundu! Fussumsvei...)

Orri Tómasson
Ragnar Pétursson (jarðepli)
Svanhvít Lilja Ingólfsd. (mynd af sæhesti)
Arnhildur Lilý Karlsdóttir
Þuríður Helgadóttir
Ásgeir Ásgeirsson
Hildur Björgvinsdóttir
Anna Karen Sigvaldadóttir
Toni


Nú man ég eftir einhverju svipuðu sem var skrifað niður í öðru partýi, Þura varst þú ekki með þá bók? Það var líka rosa gaman að lesa það... Ahh, those were the days...

sunnudagur, október 12, 2003

Æ mig auma... enn ein tilvonandi ,,læruhelgin mikla" orðin að sama og engu. En það var samt voða gaman hjá mér í gær, fyrst að leika hóru í hópi góðs fólks, svo að horfa á bestu draugamynd allra tíma með Áslaugu, Auði og Tinnu og loks að drekka bjór og dansa til kl. 6 í morgun. Þetta síðastnefnda orsakaði einmitt slappleika mikinn (en ljúfan engu að síður) sem hefur verið að hrjá mig í dag, og hef þess vegna engan veginn getað hugsað mér að setjast niður og reikna eðlisfræðidæmi. Ég henti þó í eina vél (vei! Elín á hreinar nærbuxur núna, klapp klapp!) en það var mér næstum ofviða að hengja þvottinn upp, mig svimaði heilmikið. Úff.
Hér með lýsi ég því yfir að ég er algjör aumingi ef ég mæti ekki í eðlisfræðitíma kl. 8 í fyrramálið.

föstudagur, október 10, 2003

Sænskt ,,Hurra"!

Enn einn bloggari hefur í dag komið út úr skápnum og er það engin önnur en Svanhvít, mín ektakvinna!
Skemmtanagildi er með besta móti og stafsetning og málfræði til fyrirmyndar (enda ekki við öðru að búast) og menningarlegt yfirbragð ræður ríkjum, vitnað er í ljóð hægri vinstri. Nú þarf bara að skella upp kommentakerfi, linkum og teljara svo mannsæmandi teljist...

Annars erum við að fara að leika hórur á morgun. Fylgist með á Laugaveginum milli 12 og 13!

Nú hefur það tvisvar komið fyrir að ég er spurð hvað ég sé að læra í Háskólanum og ég svara að ég sé að læra lyfjafræði. Og fæ þá til baka : ,,Jæja, svo þú ætlar bara að verða læknir!"
Er ég ein um að finnast það alveg fáránlegt að fólk kannist ekki við starfsheitið lyfjafræðingur? Heldur fólk að það séu bara læknar sem sjái um apótekin eða þrói ný lyf á rannsóknarstofum? Ég bara spyr...

Getur einhver útskýrt fyrir mér hvers vegna síðan mín er grá þegar hún er skoðuð í sumum browserum? Hún á að vera fallega græn :( en þegar ég skoða hana héðan (er í tölvuverinu í VR-II) eða úr fartölvunni minni er hún grá. Mér finnst mjög leiðinleg tilhugsun að einhverjir hafi kannski aldrei séð síðuna mína öðruvísi en gráa. Þeir hljóta að halda að ég sé leiðinleg manneskja. Og svo eru arkívin fyrir júní og ágúst horfin. Hvaða hvaða...

Annars gerðist sá sjaldgæfi atburður í gær að ég eldaði virkilega fínan mat handa okkur þremenningunum á Vesturgötunni, þríréttað og alles!
Í forrétt var humar, soðinn í hvítvíni og borinn fram með indverskri karrýsósu og hrísgrjónum og sítrónusafi kreistur yfir, í aðalrétt voru vel pipraðar nautalundir með rauðvínssósu og kartöflugratíni og í eftirrétt var vanilluís með heitri súkkulaðisósu, namm... Og hvert var svo tilefnið? Eiginlega ekkert, nema það að Atli fékk fína rauðvínsflösku í afmælisgjöf og við ákváðum að við yrðum nú að elda nautasteik til að borða með víninu, og svo fór ég að plebbast og vildi hafa humar í forrétt. Vín kvöldsins voru hvítvínið Long Mountain Chardonnay og rauðvínið Roodeberg. Bæði Suður-Afrísk og mjög góð (annars hef ég ekkert vit á vínum en mér fannst þau bara samt góð.)

Svo horfðum við á kvikmyndina One Hour Photo. Ég bjóst við góðri mynd en varð fyrir töluverðum vonbrigðum, persónurnar voru allar eitthvað svo flatar og myndin viðburðasnauð. Ojæja, en maturinn var góður... og það er ennþá til bæði nautakjöt og ís heima! Meira þarf ég ekki til að vera hamingjusöm.

þriðjudagur, október 07, 2003

Frá og með 12. nóvember verð ég alltaf í fríi í skólanum á mánudögum og föstudögum. Ekki er það leiðinlegt.
Hverju sæta þessi undur og stórmerki? Jú, 12. nóv lýkur kennslu í eðlisfræði og það eru einmitt einu tímarnir á mánudögum og föstudögum. Ég verð semsagt með 3 virka daga og 4 helgardaga... mmmmm....

Annars kollvarpaðist kenningin mín um íslenska rokið áðan. Ég var að hjóla heim eftir 4 yndislega tíma í verklegri efnafræði og það var (og er enn) svo hvasst að það var hreinlega absúrt, jafnvel klúrt. Rykið og laufblöðin þeyttust á full speed framan í mig og uppí augun og munninn, og svo upplifði ég rokið frá öllum mismunandi hliðum. Rokhviður frá hægri og vinstri voru margsinnis næstum búnar að fella mig til hliðar og mótvindurinn var hreinlega eins og að reyna að hjóla í sírópi. Aftur á móti naut ég meðvindar síðasta spölinn og leið bara hreinlega eins og ég væri E.T., flying home... og núna hvín og gnauðar í öllu húsinu.

Bætti svo inn link á hann Ragga funheita, aka DJ Tómas frændi in da house/cabin...

laugardagur, október 04, 2003

Ég er orðin stoltur eigandi fartölvu og svona er hún (a pretty girl, ain't she?) Verst að ég hef ennþá ekki haft neinn tíma til að leika mér í henni og svo þegar ég ætlaði að nettengja hana kom í ljós að ég hafði fengið vitlausa snúru sem virkaði ekki baun í bala, þannig að greyið er ósköp tómt í augnablikinu. Ég á náttúrulega eftir að færa allt dótið mitt úr þessari tölvu (Atla tölvu, sem er feit, ljót og klunnaleg miðað við mína), einhvern veginn verð ég að fylla þessi 40 Gb...
Annars eyddi ég í dag þremur tímum í að kópera efnafræðidæmi af töflunni í VR-I, svona er að vera löt að mæta í dæmatímana... og ég er með hálsríg. Í kvöld er ég svo að fara að keppa í einhverjum tölvuleik sem ég hef aldrei spilað áður og drekka Bacardi Limón, væntanlega blandaðan í eitthvað gott, yum...
Bætti svo inn linkum á eitthvað lybbalið (lybbar = lyfjafræðinemar), hana Ellu Gellu (sem er miklu meiri Ella Gella en ég, sorrý Þura) og bloggsíðu nokkurra E og G lyfjafræðistúdína...

fimmtudagur, október 02, 2003


Þetta blaðraði Elín .
Sent með Símbloggi Hex