Fyndin saga af frekjudós
Hef ekki orku í að skrifa mikið núna en get þó ekki orða bundist yfir því sem kom fyrir mig áðan.
Ég var að kaupa mér mjólk og morgunkorn í 10-11 Seljavegi og stóð í rólegheitum í biðröð, það var komið að mér að borga og afgreiðslumaðurinn var meira að segja kominn með mjólkina í hendurnar og ætlaði að renna henni í gegn. Ryðst þá ekki ca. 65 ára gamall maður fyrir framan mig (les. ýtir harkalega við mér og gefur mér olnbogaskot í bakið), svaka fínt dressaður í jakkafötum, með grátt snyrtilegt hár og gervibrúnn (les. appelsínugulur) í framan. Hann skellir blandi í poka á færibandið og tilkynnir háum frekjurómi : ,,Ég á að vera á undan þér því ég er bara með þetta."
Ég segi, náttúrulega frekar hneyksluð: ,,Uuuu, nei veistu, ég er á undan þér í þessari biðröð og ég er bara með 2 hluti þannig að þú hlýtur að geta beðið smá."
Hann: ,,Nei, ég ætla að vera á undan, ég er bara með þetta. (segir við kassagaurinn) Já, renndu þessu bara í gegn!"
Ég (við kassagaurinn) : ,,Kommon, ekki láta manninn komast upp með svona frekju. Ég meina, til hvers er biðröðin?"
Á meðan á þessu stendur stendur kassagaurinn með hökuna niður á bringu við kassann og treystir sér greinilega ekki til að skerast í leikinn.
Frekjudósin horfir á kassagaurinn (sem gerir sig ekki líklegan til að aðhafast eða segja neitt) og lítur að lokum illilega á mig og öskrar: ,,Já, þú ert bara LEIÐINLEG og HEIMSK!!!" og stormar við það út úr búðinni og skilur nammið sitt eftir.
Ég hefði aldrei getað fyrirgefið sjálfri mér ef ég hefði leyft þessum manni að troðast fram fyrir mig... en þetta var samt svo óraunverulegt og fáránlegt að ég er bara búin að vera hálfhlæjandi síðan!