sunnudagur, júlí 25, 2004

Þetta er mesti snilldarleikur sem ég hef séð lengi. Yummy.

Annars er ég búin að vinna svo mikið þessa helgi og sofa svo lítið að ég ætla að fara að tygja mig í háttinn og njóta þess svo að vera í fríi á morgun og hinn.
Vona að það verði skítaveður á morgun því þá er svo gott að hanga inni og kúra.

PS. ég djammaði með skipstjóranum mínum á fimmtudagskvöldið, tíhíhí.... men in uniforms be hunky...

laugardagur, júlí 24, 2004

Fyndin saga af frekjudós

Hef ekki orku í að skrifa mikið núna en get þó ekki orða bundist yfir því sem kom fyrir mig áðan.

Ég var að kaupa mér mjólk og morgunkorn í 10-11 Seljavegi og stóð í rólegheitum í biðröð, það var komið að mér að borga og afgreiðslumaðurinn var meira að segja kominn með mjólkina í hendurnar og ætlaði að renna henni í gegn. Ryðst þá ekki ca. 65 ára gamall maður fyrir framan mig (les. ýtir harkalega við mér og gefur mér olnbogaskot í bakið), svaka fínt dressaður í jakkafötum, með grátt snyrtilegt hár og gervibrúnn (les. appelsínugulur) í framan. Hann skellir blandi í poka á færibandið og tilkynnir háum frekjurómi : ,,Ég á að vera á undan þér því ég er bara með þetta."
Ég segi, náttúrulega frekar hneyksluð: ,,Uuuu, nei veistu, ég er á undan þér í þessari biðröð og ég er bara með 2 hluti þannig að þú hlýtur að geta beðið smá."
Hann: ,,Nei, ég ætla að vera á undan, ég er bara með þetta. (segir við kassagaurinn) Já, renndu þessu bara í gegn!"
Ég (við kassagaurinn) : ,,Kommon, ekki láta manninn komast upp með svona frekju. Ég meina, til hvers er biðröðin?"
Á meðan á þessu stendur stendur kassagaurinn með hökuna niður á bringu við kassann og treystir sér greinilega ekki til að skerast í leikinn.
Frekjudósin horfir á kassagaurinn (sem gerir sig ekki líklegan til að aðhafast eða segja neitt) og lítur að lokum illilega á mig og öskrar: ,,Já, þú ert bara LEIÐINLEG og HEIMSK!!!" og stormar við það út úr búðinni og skilur nammið sitt eftir.

Ég hefði aldrei getað fyrirgefið sjálfri mér ef ég hefði leyft þessum manni að troðast fram fyrir mig... en þetta var samt svo óraunverulegt og fáránlegt að ég er bara búin að vera hálfhlæjandi síðan!


þriðjudagur, júlí 20, 2004

30. júní

Vöknuðum flest frekar þunn eftir gærkvöldið. Þar sem frekar lítið var við að vera á svæðinu ákváðum við að skella okkur til Köben að hitta Mette, vinkonu okkar Svanhvítar, nema Þura, hún fór aftur til Köge.
Við tókum lest til Köben og röltum svo Strikið, þar sem ég fann að lokum gúmmístígvél sem redduðu mér alveg í drullunni (kom bara í strigaskóm) og Atli fann sér svitalyktareyði sem reddaði okkur hinum alveg (hinn brotnaði í fluginu). Sátum aðeins í Nyhavn í steikjandi sólskini og drukkum öl, það var alveg yndislegt.
Kíktum svo aðeins í Kristjaníu sem er rosalega fallegur staður. Á veggjum standa margar fleygar setningar, eins og : ,,Farten ned! Köb en ged!" Þar eru líka margir stórir hundar. Og löggur. Og líka óeinkennisklæddar löggur sem eru dressaðar eins og pusherar með stóra hatta til að nappa saklaus ungmenni. Fussumsvei.
Þegar við komum aftur á tónleikasvæðið brá okkur í brún. Við vorum með tvö tjöld og höfðum tjaldað þeim með smá millibili til að geta setið þar á milli og spjallað, en nú hafði einhver tjaldað sínu litla kúlutjaldi á milli tjaldanna okkar! Reyndist það vera smávaxin rauðhærð dönsk snót, Lisa að nafni, 26 ára gömul og blaðamaður. Við fyrirgáfum henni fljótt, enda reyndist hún hin indælasta og fór það þannig að hún var með okkur mestallan tímann, enda lenti vinkona hennar á spítala stuttu fyrir hátíðina og komst ekki með henni.
Gerðum fátt merkilegt þetta kvöld, vorum svo þreytt eftir daginn.

Núna er ég líka orðin þreytt eftir daginn, enda búin að vera á fótum síðan kl. 7:30 og var að vinna frá 8-21... þannig að ég held að ég verði að lofa framhaldi seinna... og ég er ekki einu sinni byrjuð á hátíðinni sjálfri!

P.S. vissuð þið að Maarud heitir ekki Maarud heldur Estrella í Danmörku? Og hið frábæra snakk OstePop heitir þar OsteRejer eða Ostarækjur? Jahérna...

Jahá! Núna er semsagt hægt að tjá sig í lit og skipta um font hjá Blogger! Glæsilegt, enda kominn tími til. Annað sem er kominn tími á: ,,oggulítil" ferðasaga frá Hróarskeldu.
Njótið vel.

28. júní

Ég, Atli, Þura og Svanhvít (ásamt dálaglegum hóp af drukknum ungmennum) lentum á Kastrup kl. 22 en vegna svefnpokavandræða sumra misstum við af síðustu lest til Hróarskeldu en tókst þó að redda okkur með því að taka lest fyrst til Köben og svo til Roskilde (sumir voru ekki með í þessu ævintýri þar sem þeir gistu í Köge, í dýragarði frænku sinnar). Þegar við komum á svæðið töluðum við við brosmilda ljóshærða danska stúlku sem lét okkur fá armbönd en okkur leist þó ekki á blikuna þegar heljarmikil kelling með sígarettuna lafandi úr öðru munnvikinu festi armböndin á okkur með svakalegri töng, óttuðumst við þar um putta okkar.
Þegar þarna var komið var klukkan tvö að nóttu og náttúrulega niðamyrkur en við (ég, Atli og Svanhvít) ákváðum samt að rölta um (í Westcamp) og leita að tjaldstæði, haldandi á ca. 50 kg af drasli. Hittum samt fyrr en varði bráðhressa og blindfulla Hvergerðinga sem sögðu okkur að þarna væru öll tjaldstæði upptekin í 2 km radíus, en vildu aftur á móti endilega djamma með okkur og gefa okkur áfengi. Það vildi meira að segja svo vel til að þau vorum með autt tjald (tjaldað fyrir vinkonu þeirra sem kom 2 dögum síðar) og buðu okkur að gista í því um nóttina svo við gætum djammað með þeim og leitað að tjaldstæði daginn eftir. Við þáðum þetta með þökkum, ég var reyndar með dúndrandi hausverk (hafði verið með hann alveg síðan í fluginu) svo ég fór bara að sofa og Svanhvít líka, en Atli sprellaði eitthvað fram eftir nóttu.

29. júní

Ég vaknaði við það að rigningin lamdi tjaldið að utan. Fokk. Við vorum semsagt að fara að rogast um í drullusvaði einhverja svaka vegalengd að leita að tjaldstæði... Í RIGNINGU. Og eins og fólk veit, þá er allt erfiðara í rigningu. Að tjalda í rigningu? Ojbjakk.
Þura kom fljótlega á svæðið, holdvot og sexí. Stuttu eftir það átti ég mína fyrstu klósettreynslu á Roskilde, og ég er ekki frá því að hún hafi verið sú ógeðslegasta, enda þetta svæði mun fjölmennara heldur en svæðið þar sem við tjölduðum að lokum.
Eða kannski var ég bara meiri pempía í upphafi ferðar. Það er samt ekkert gaman að hafa annars manns kúk 7 cm frá rassinum á manni þegar mar er að pissa. Og hananú.
Það var alveg frábært að geta geymt draslið okkar í tjaldinu á meðan við vorum að rölta um að leita að lausu tjaldstæði. Eftir töluvert labb fundum við alveg frábært stæði sem var nokkurn veginn á mótum N svæðis og P svæðis (fyrir þá sem voru þarna). Þessi staður var þeim töfrakostum gæddur að þó að þó að drullan tröllriði öllu allsstaðar þá var þetta plads alltaf þurrt og fínt. Praise the lord. Við vorum samt ca. 20 mínútur að labba á tónleikasvæðið og þurftum yfirleitt að synda hluta af leiðinni, svo mikil var drullan (nei, nú kríta ég liðugt. en drullan var samt MIKIL.)
Þetta kvöld áttum við alveg ágætis djamm með Íslendingum sem voru nálægt okkur (fellow MH-ingar flestir) en einnig hitti ég þarna frændur mína tvo, þá Skúla og Bergstein. Fyndið reyndar að við vorum búin að sitja heillengi og spjalla áður en ég fattaði hverjir þetta væru, svo mikið var myrkrið.

Og nú er best að publisha.

miðvikudagur, júlí 14, 2004

It's alive!

Mig langar svo til að skrifa flotta og skemmtilega ferðasögu frá Hróarskeldu, en mér vex verkefnið gríðarlega í augum því þetta voru náttúrulega 8 dagar og nóg sem gerðist... og þess vegna hef ég ekkert bloggað í háa herrans tíð.

Hér koma þó nokkur samhengislaus gullkorn til að gleðja ferðafélaga mína:

-Kloakservice!
-Älg park
-So fresh, so clean...
-Hej Susanne
-Luraluralura
-Her kan våckra flickor söka amnesti
-Jävla (insert word here)
-Harboe Pilsner (12 flöskur sem urðu eftir!!)
-Fuck Bowie's læge
-Vegan farts (fissa)
-Sótthreinsigelið góða (þarf að redda mér þannig inn á bað)
-Jeeeeeeeeeeee......

Eins og lesa má höfðu samvistir við Svía þó nokkur áhrif á ferðina, bæði til góðs og ills...

******

Ég man þá gömlu góðu daga þegar No Good (Start the Dance) m. Prodigy var besta tónlistarmyndband ever.