þriðjudagur, júlí 20, 2004

30. júní

Vöknuðum flest frekar þunn eftir gærkvöldið. Þar sem frekar lítið var við að vera á svæðinu ákváðum við að skella okkur til Köben að hitta Mette, vinkonu okkar Svanhvítar, nema Þura, hún fór aftur til Köge.
Við tókum lest til Köben og röltum svo Strikið, þar sem ég fann að lokum gúmmístígvél sem redduðu mér alveg í drullunni (kom bara í strigaskóm) og Atli fann sér svitalyktareyði sem reddaði okkur hinum alveg (hinn brotnaði í fluginu). Sátum aðeins í Nyhavn í steikjandi sólskini og drukkum öl, það var alveg yndislegt.
Kíktum svo aðeins í Kristjaníu sem er rosalega fallegur staður. Á veggjum standa margar fleygar setningar, eins og : ,,Farten ned! Köb en ged!" Þar eru líka margir stórir hundar. Og löggur. Og líka óeinkennisklæddar löggur sem eru dressaðar eins og pusherar með stóra hatta til að nappa saklaus ungmenni. Fussumsvei.
Þegar við komum aftur á tónleikasvæðið brá okkur í brún. Við vorum með tvö tjöld og höfðum tjaldað þeim með smá millibili til að geta setið þar á milli og spjallað, en nú hafði einhver tjaldað sínu litla kúlutjaldi á milli tjaldanna okkar! Reyndist það vera smávaxin rauðhærð dönsk snót, Lisa að nafni, 26 ára gömul og blaðamaður. Við fyrirgáfum henni fljótt, enda reyndist hún hin indælasta og fór það þannig að hún var með okkur mestallan tímann, enda lenti vinkona hennar á spítala stuttu fyrir hátíðina og komst ekki með henni.
Gerðum fátt merkilegt þetta kvöld, vorum svo þreytt eftir daginn.

Núna er ég líka orðin þreytt eftir daginn, enda búin að vera á fótum síðan kl. 7:30 og var að vinna frá 8-21... þannig að ég held að ég verði að lofa framhaldi seinna... og ég er ekki einu sinni byrjuð á hátíðinni sjálfri!

P.S. vissuð þið að Maarud heitir ekki Maarud heldur Estrella í Danmörku? Og hið frábæra snakk OstePop heitir þar OsteRejer eða Ostarækjur? Jahérna...