þriðjudagur, júlí 20, 2004

Jahá! Núna er semsagt hægt að tjá sig í lit og skipta um font hjá Blogger! Glæsilegt, enda kominn tími til. Annað sem er kominn tími á: ,,oggulítil" ferðasaga frá Hróarskeldu.
Njótið vel.

28. júní

Ég, Atli, Þura og Svanhvít (ásamt dálaglegum hóp af drukknum ungmennum) lentum á Kastrup kl. 22 en vegna svefnpokavandræða sumra misstum við af síðustu lest til Hróarskeldu en tókst þó að redda okkur með því að taka lest fyrst til Köben og svo til Roskilde (sumir voru ekki með í þessu ævintýri þar sem þeir gistu í Köge, í dýragarði frænku sinnar). Þegar við komum á svæðið töluðum við við brosmilda ljóshærða danska stúlku sem lét okkur fá armbönd en okkur leist þó ekki á blikuna þegar heljarmikil kelling með sígarettuna lafandi úr öðru munnvikinu festi armböndin á okkur með svakalegri töng, óttuðumst við þar um putta okkar.
Þegar þarna var komið var klukkan tvö að nóttu og náttúrulega niðamyrkur en við (ég, Atli og Svanhvít) ákváðum samt að rölta um (í Westcamp) og leita að tjaldstæði, haldandi á ca. 50 kg af drasli. Hittum samt fyrr en varði bráðhressa og blindfulla Hvergerðinga sem sögðu okkur að þarna væru öll tjaldstæði upptekin í 2 km radíus, en vildu aftur á móti endilega djamma með okkur og gefa okkur áfengi. Það vildi meira að segja svo vel til að þau vorum með autt tjald (tjaldað fyrir vinkonu þeirra sem kom 2 dögum síðar) og buðu okkur að gista í því um nóttina svo við gætum djammað með þeim og leitað að tjaldstæði daginn eftir. Við þáðum þetta með þökkum, ég var reyndar með dúndrandi hausverk (hafði verið með hann alveg síðan í fluginu) svo ég fór bara að sofa og Svanhvít líka, en Atli sprellaði eitthvað fram eftir nóttu.

29. júní

Ég vaknaði við það að rigningin lamdi tjaldið að utan. Fokk. Við vorum semsagt að fara að rogast um í drullusvaði einhverja svaka vegalengd að leita að tjaldstæði... Í RIGNINGU. Og eins og fólk veit, þá er allt erfiðara í rigningu. Að tjalda í rigningu? Ojbjakk.
Þura kom fljótlega á svæðið, holdvot og sexí. Stuttu eftir það átti ég mína fyrstu klósettreynslu á Roskilde, og ég er ekki frá því að hún hafi verið sú ógeðslegasta, enda þetta svæði mun fjölmennara heldur en svæðið þar sem við tjölduðum að lokum.
Eða kannski var ég bara meiri pempía í upphafi ferðar. Það er samt ekkert gaman að hafa annars manns kúk 7 cm frá rassinum á manni þegar mar er að pissa. Og hananú.
Það var alveg frábært að geta geymt draslið okkar í tjaldinu á meðan við vorum að rölta um að leita að lausu tjaldstæði. Eftir töluvert labb fundum við alveg frábært stæði sem var nokkurn veginn á mótum N svæðis og P svæðis (fyrir þá sem voru þarna). Þessi staður var þeim töfrakostum gæddur að þó að þó að drullan tröllriði öllu allsstaðar þá var þetta plads alltaf þurrt og fínt. Praise the lord. Við vorum samt ca. 20 mínútur að labba á tónleikasvæðið og þurftum yfirleitt að synda hluta af leiðinni, svo mikil var drullan (nei, nú kríta ég liðugt. en drullan var samt MIKIL.)
Þetta kvöld áttum við alveg ágætis djamm með Íslendingum sem voru nálægt okkur (fellow MH-ingar flestir) en einnig hitti ég þarna frændur mína tvo, þá Skúla og Bergstein. Fyndið reyndar að við vorum búin að sitja heillengi og spjalla áður en ég fattaði hverjir þetta væru, svo mikið var myrkrið.

Og nú er best að publisha.