miðvikudagur, október 19, 2005

Ég vissi ekki hvort ég átti að hlæja, gráta eða æla af gleði þegar ég var í ræktinni í gær og myndbandið "Call on me" m. Eric Prydz kom á Sirkus... það er bara ekki til skemmtilegra myndband þegar maður er að púla á skíðavélinni...

En jæja jæja, netið er komið og fína adsl sjónvarpið líka, með Discovery, Cartoon Network og alls konar dóti. Verst að ég hef engan tíma til að horfa á þetta allt saman, allt gjörsamlega brjálað að gera í skólanum... á morgun þarf ég að skila 3 skýrslum, fara í krossapróf og halda fyrirlestur... og fara svo í a.m.k. 5 tíma verklega lífræna efnafræði.
En að sjálfsögðu tók ég mér smá pásu áðan til að horfa á ANTM. Voðalega sem þessar svörtu konur eru reiðar alltaf. Tyra bara mætt beint úr gettóinu: "you don't know where I come from, you don't know what I've been through..." "Hell, that bitch spilled beer all over my weave!" og svo að sjá þessar elskur reyna að lesa, hahahaha.... þetta er bara yndislegt.

En já, 5 atriða listi:


1. Ég er með fóbíu fyrir tannkremsfroðu og finnst hún virkilega ógeðsleg. Ég get ekki horft á fólk tannbursta sig, ég get ekki tannburstað mig við hliðina á öðrum og ég á mjög erfitt með að tannbursta mig inni á ókunnugum baðherbergjum (sérstaklega ef mér finnast þau ekki mjög hrein). Ég held ég geti rakið þessa fóbíu til atriðis í Spaugstofunni í gamla daga þegar Kristján heiti ég Ólafsson var að prófa mismunandi bursta til að tannbursta sig. Þetta atriði horfði ég á aftur og aftur og fannst það alltaf ógeðslegra og ógeðslegra.
2. Ég er elst af 5 systkinum og finnst voðalega oft eins og ég þurfi að taka ábyrgð á öllu og öllum í kringum mig.
3. Ég get hreyft nasavængina og í leiðinni dýpkar péturssporið á hökunni á mér. Ég kann líka að nota vatnsgeisladælu og að láta skiltrekt ropa.
4. Ég ætla að eiga svaka flott bókasafnsherbergi þegar ég verð stór, með mahogny húsgögnum, Chesterfield sófa, arin og fullt af grænum bókasafnslömpum.
5. Ég er að fara til Köben á föstudaginn!!!

Ég klukka hér með engan því það eru allir löngu búnir að taka þátt í þessum skemmtilegheitum.


Orð dagsins eru: sykurmiga, juxtaglomural apparatus og micturation.

föstudagur, október 07, 2005

Manneskjan sat með kindarhaus, músík-, bóka- og myndalaus

...eða svona næstum því.
Núna höfum við verið sjónvarpslaus í Miðtúninu í u.þ.b. 3 vikur og internetslaus í 6 daga.... hvað næst? Ekkert rafmagn? Ekkert rennandi vatn? Við gætum allt eins hafið búskap á Uppsölum.

Sjónvarpsleysið venst reyndar merkilega vel, sakna mest ANTM... en internetsleysið? Ég missi af mikilvægum tölvupóstum sí og æ, get ekki prentað glósur, er bara alveg út úr. En þetta stendur nú brátt til bóta. Og ef ég pæli í því þá erum við nú með nóg af músík, bókum og myndum. Og ég er búin að vera nokkuð dugleg að læra bara, netið er svoddan tímaþjófur.

Eftirfarandi aðilar fá feitan mínus:
* heimski smiðurinn sem klippti á sjónvarpskapalinn okkar
*Síminn sem er óskiljanlega stæla
*Hive sem ekkert getur nema látið okkur fá hvern routerinn á fætur öðrum sem virka ekki

Annars sit ég bara á Prikinu núna, fer bráðum í dæmatíma í línulegri algebru og tölfræði og fer síðan í einhverja fylleríssveitaferð með lyfjafræðinni. Alveg hægt að gera verri hluti á föstudegi...
En já, blogga næst þegar blessað internetið verður komið heim til mín. 5 atriða listi er í smíðum...