Dull vinnublogg -tileinkað Guðnýju því hún heimtaði nýja færslu
Ég vinn á hvalaskoðunarbát. Þetta er afar fín vinna, soldið mikil reyndar (hef tvisvar þurft að vinna 16 tíma vaktir, m.a. í gær) en ein spurning sem margir velta fyrir sér í sambandi við starfið mitt er það hvort ég þurfi einhvern tímann að þrífa upp ælu eftir sjóveikt fólk. Þær aðstæður geta jú komið upp og ég hef reyndar lent í því einu sinni að þurfa að þrífa ælu upp úr teppi. Þetta var kl. 9 að morgni til, ég var þunn, einungis sofin í 4 tíma og stödd úti á rúmsjó í heilmiklum velting á hnjánum að skrúbba upp ælu, reynandi að kasta ekki upp sjálf.
Lyktin er bara það versta í heimi. Á þessu augnabliki var ég ekki ýkja hrifin af vinnunni minni.
Svo koma aftur á móti yndislegar ferðir, t.d. ef það er gott veður og lítið að gera þá get ég bara verið uppi á dekki að skoða hvalina eins og hver annar túristi. Ég sá stökkvandi hnúfubak um daginn, það var æði.
Hérna er meira að segja hægt að sjá myndskeið sem voru tekin upp í þessari sömu ferð (ég tek það fram að gelgjan sem segir "Ó mæ god, ert'ekk'að djóka í mér" er EKKI ég...).
En já, svo ég haldi áfram að tala um ælu þá hefur það víst verið reynslan á bátnum mínum að fólk af asískum uppruna verði mun frekar sjóveikt en aðrir. Þess vegna glottir skipstjórinn og segir : ,,Elín, eins gott að þú verðir tilbún með ælupokana, hehe.." þegar við fáum stóra hópa af Japönum.... Ælan sem ég þreif upp um daginn var reyndar ekki japönsk heldur bresk. Svona English breakfast, mætti segja.