þriðjudagur, janúar 25, 2005

Ég er komin með íbúð á Stúdentagörðunum, gleði gleði! Get vonandi byrjað að flytja inn í hana á föstudaginn, hlakka ekkert smá til að gera hana flotta, ef efni og aðstæður leyfa...
Íbúðin er s.s. á Ásgörðum, Eggertsgötu 24, 35 fm einstaklingsíbúð og vonandi rosa fín bara. Svo er planið að halda innflutningspartý þegar íbúðin er orðin mönnum bjóðandi, ég verð örugglega að halda 3 partý til að geta boðið öllum sem mig langar til að bjóða!

***

Óska eftir að einhver hjálpi mér að fjarlægja þetta kommentakerfi dauðans og setja upp haloscan í staðinn! Gerði nokkrar tilraunir til þess arna og rústaði síðunni æ meir í hvert skipti, teljaradraslið mitt hvarf líka út og allt...

***

Ég sá rosalega margar ælur úti í dag. Það hlýtur eitthvað að vera að ganga.

sunnudagur, janúar 16, 2005

Alveg eins og Brad og Jennifer

Föstudaginn 7. janúar þá hættum ég og Atli saman. Það var mest lítið tragískt eða spennandi við þessi sambandsslit, þetta var sameiginleg ákvörðun hjá okkur og við gerðum okkur grein fyrir því að við vorum miklu frekar vinir sem þykir mjög vænt hvoru um annað frekar en kærustupar. Við búum ennþá saman á Vesturgötunni sem er auðvitað svolítið skrítið en ég hef einfaldlega engan annan stað til að búa á í bili en vona að ég komist inn á Stúdentagarðana sem fyrst, biðlistinn hreyfist hratt þessa dagana.
Þetta samband varði í heil 5 ár og 4 mánuði, við byrjuðum saman 4. september 1999, sextán ára sweethearts í MH... og þetta samband var alveg frábært og gaf okkur báðum mjög margt gott en núna er bara kominn tími á eitthvað annað. Það er svolítið erfitt að venja sig á að hugsa "ég" í staðinn fyrir "við" og stundum finn ég fyrir undarlegum tómleika sem er samt ekki sorg eða eftirsjá en það er bara um að gera að fylla þetta tómarúm með skemmtilegum hlutum og fólki, nóg er af því! En já, maður jafnar sig víst ekki á 5 ára sambandi bara einn, tveir og þrír, þetta tekur bara tíma þó tragíkin sé lítil sem engin.
Samúðarkveðjur eru vinsamlegast afþakkaðar enda engin þörf fyrir þær, samt virðast hamingjuóskir ekki alveg vera við hæfi...

Ykkar ástkær Elín, sem er á lausu og kann það ekki.