mánudagur, febrúar 14, 2005

Bloggað úr höllinni

Í upphafi var netlaust og netlaust var hjá Elínu og netlaus var Elín. En svo kom netið og Elín sá að það var gott.

Eftir að hafa fiktað í öllum mögulegum og ómögulegum netstillingum á tölvunni og átt í æsilegu símasambandi við netumsjónarmann Garðanetsins kom í ljós að mig vantaði öðruvísi snúru. Það var svolítið pirrandi að fatta það, sérstaklega þar sem ég átti til slíka snúru en hún hafði ekki virkað uppi á Vesturgötu en hérna virkar hún... en vá, hver nennir að lesa blogg um netsnúrur. Þegiðu Elín.

Í dag labbaði ég úti í 3 og hálfan tíma og hlustaði á góða tónlist og vann mér inn pening í leiðinni.
Ekki leiðinlegt. Eða jú, reyndar pínu því ég varð mjög blaut í fæturna. Ég er s.s. að vinna við að bera út póst og þegar ég hlusta á skemmtilega tónlist þá gleymi ég því að ég sé að vinna, og sú staðreynd að ég sé að vinna lætur mig gleyma því að ég sé að hreyfa mig.
Ég á eftir að verða alveg gapandi hissa þegar ég fæ útborgað! Og í ofanálag er ég búin að léttast um 2 kg síðan ég byrjaði að vinna, en af nógu er að taka og betur má ef duga skal eins og karlinn sagði.

Ég djammaði 3 kvöld í röð í síðustu viku! Slíkt hefur ekki gerst í manna minnum. KosningaRöskvan kom sterk inn á fimmtudaginn með ódýran bjór og mikið stuð, færri sögum fór af 3ja manna eftirpartíinu þar sem gin var sötrað og mikið röflað... jájá.
Á föstudagskvöldið var afmæli hjá Auði og eftir það var haldið á Kofann, eftir stutta viðkomu á Kaffibarnum þar sem litlar stelpur í skærlituðum "tube tops" og þröngum hvítum buxum áttu óskipta athygli mína. Á Kofanum, á Kofanum... var skemmtilegt að vera. Við Særós röltum saman heim um 6 leytið.
Á laugardagskvöldið höfðu fregnir borist af því að stripp show eitt mikið myndi eiga sér stað á Kofanum og ekki missir maður af svoleiðis, ónej. Við Björk hittumst áður á Prikinu til að sötra ódýran bjór og þar kynntumst við því að aldrei er of varlega farið í samskiptum við drukkna karlmenn er bjóða manni að setjast niður við spil. Annar gaurinn var reyndar ágætur og vildi bara spila og spjalla. Hinn notaði tækifærið þegar Björk fór á barinn (ég var ekki komin þá) og tók símann hennar, fór með hann inn á karlaklósett, slökkti á honum og henti honum í ruslið.
Hvernig dettur fólki í hug að gera svona hluti? Svo þegar hún tók eftir því að síminn væri horfin spurði hún þá út í þetta og þeir neituðu öllum sökum og létu dólgslega. Sem betur fer komst þetta upp, með góðri hjálp starfsstúlkna Priksins, Björk fékk símann sinn og við skunduðum kátar á Kofann.
Strip showið var ólýsanlegt, vona bara að einhver hafi tekið myndir.
Eftir strippið var greinilega kominn einhver sveittur fílingur í karlmenn staðarins því að á einum tímapunkti var yfir helmingur karlmannanna á dansgólfinu kominn úr að ofan.
Sveitt sveitt sveitt. Ég var komin heim um 7 leytið.
Í stuttu máli: ég gerði nákvæmlega ekkert annað um helgina en djamma og sofa. Ekki sérlega pródúktívt en ofboðslega gaman. Einhver lítill djammpúki er greinilega að brjótast út.

Ég hefi hugsað mér að halda innflutningspartí föstudaginn næstkomandi. Mun gleðin hefjast uppúr kl 20 í íbúð 308, Eggertsgötu 24. Ég ætla að senda boðs-sms á fólk, ef þú þekkir mig og færð ekki sms en langar samt að koma þá talarðu bara við mig, ég verð því miður að viðhafa fjöldatakmörkun þar sem pláss og sæti eru af mjög skornum skammti en auðvitað er alltaf gaman að sjá gott fólk. Lybbagellur eru ekki inni í þessu partíi, þið fáið einkapartí seinna, þið eruð svo ansvíti margar...

*dæs* sumt fólk er víst þannig að það langar til að gefa manni innflutningsgjafir þegar maður heldur innflutningspartí. Þeirra vandamál, en hérna er allavega örlítill listi yfir hluti sem mig vantar ennþá í búið:

*hraðsuðukönnu
*þennan standlampa (hefði samt svo svarið að hann héti "Orgel" í búðinni... o jæja...)
*"dauða" gúmmíönd úr ranimúsk (hún er svört á litinn)
*geisladiskahillu (í þessum stíl t.d.)
*flott rúmföt (þessi yrðu einstaklega vinsæl)
*dökk vínrauða mottu undir litla sófaborðið mitt
*hillusamstæðu
*bókahillu
*vöfflujárn
*rifjárn
*flott plaköt/myndir
*blandara með glerkönnu
*uppþvottagrind!
*eldfast mót
*ást og hamingju!! eða svona, hehehe...

Nei, að öllu gamni slepptu er auðvitað lang mest virði að þið komið og samgleðjist mér í fyrstu íbúðinni minni sem ég bý í ein.

Þetta blogg þjónaði tilgangi sínum ágætlega, þ.e. að ég hefði afsökun til að fresta því að læra fyrir prófið á morgun. Núna ætla ég að byrja á því.... vonandi.