Ég er hetja!
...eða því sem næst.
Flestir sem þekkja mig vel vita að ég er haldin gífurlegri fóbíu gagnvart því að láta taka úr mér blóð. Þá er það ekki stungan sjálf eða sprautan heldur að vita til þess að það sé verið að stinga inn í æðina mína og soga útúr henni blóð... það finnst mér bara hræðilegt. Get ekki einu sinni horft á þetta í sjónvarpi án þess að fá viðbjóðshroll í olnbogabæturnar. Svo hefur reynsla mín af blóðprufum bara verið hreint og beint hræðileg, síðast þegar átti að taka blóðprufu úr mér (í 9. bekk í skólaskoðun) stakk hjúkkan aftur og aftur og fann ekki æð (ofboðslega sárt og ég var nógu stressuð fyrir) og stakk síðan í hinn handlegginn og tók alltof mikið blóð og það leið yfir mig.
Þegar ég fór svo í hálskirtlatökuna í sumar tók ég sérstaklega fram við læknana að ég vildi alls ekki láta taka úr mér blóðprufu nema þess þyrfti lífsnauðsynlega, og var ég eiginlega mun kvíðnari fyrir þessari hugsanlegu blóðtöku en aðgerðinni sjálfri. Var svo mjög hress þegar blóðtakan reyndist ekki nauðsynleg.
Ég kom því sjálfri mér rækilega á óvart í morgun þegar ég samþykkti að koma með henni Ellu vinkonu minni í Blóðbankann. Hún var að fara að láta soga úr sér hálfan líter af gæða lífsvökva en ég ætlaði bara að kíkja á þetta og sjá til hvort ég myndi þora að fara í blóðprufu. Mig hefur nefnilega lengi langað til að vita pottþétt hvaða blóðflokki ég tilheyri, held ég sé O en er ekki viss. Einhvern veginn fór ég nú að því að fara þarna inn, fylla út eyðublað skjálfandi á beinunum og svo leggjast á bekk... og þetta var barasta ekkert mál! Góða konan fann æð strax, eitt lítið klíp, smá prufa tekin og svo búið. Eftir þetta fengum við svo dýrindis morgunverðarhlaðborð... og hver veit, kannski verð ég bara farin að gefa blóð eftir 2 vikur. Sko mína! Er búin að labba um í dag eins og montin hæna og sýna öllum fína plásturinn minn...
En Svanhvít á ammæli í dag og ég er að fara með henni í ammælissund... og svo verður geggt gaman í kvöld og við ætlum að kaupa okkur meter af bjór, jei!!!
<< Home