Dagurinn hefur ekki beint verið sá besti. Hefst nú vælið:
Hann hófst á því að ég var andvaka í nótt til 3 (eins og mín er von og vísa) og vaknaði svo kl. 7 í morgun með stokkbólginn háls og tilheyrandi verki, eins og alla morgna síðastliðna viku, og ákvað ég þá að nóg væri komið, nú skyldi ég fara til læknis og láta líta á þetta. Því var það mitt fyrsta verk í morgun að hringja og panta tíma hjá lækni.
Svo var komið að því að ösla í skólann í slabbinu, hálkunni og rigningunni, ég varð gegnblaut í báða fætur á einni mínútu og þegar ég kom upp í skóla var skólataskan mín líka orðin blaut í gegn svo allt fína draslið mitt lá við skemmdum.
En nú var komið að verklegri efnagreiningu. Skv. einhverju plani sem ég hafði í höndunum átti ég að gera tilraun í dag sem mér sýndist létt og löðurmannleg og var ég búin að undirbúa mig og hugsaði mér gott til glóðarinnar að ná kannski að klára hana snemma og geta svo bara farið heim, en í ljós kom að planið hafði hliðrast til svo ég átti að gera einhverja aðra tilraun sem ég var algjörlega óundirbúin fyrir og auk þess viðbjóðslega löng. Ekki bætti úr skák að ég þurfti að sulla allan tímann með illa lyktandi og ógeðsleg rokgjörn efni og sterkar hættulegar sýrur og fékk þannig illt í augun, nefið og svima í hausinn. Á tímabili leit út fyrir að tilraunin væri ónýt hjá mér því perklórsýrulausnin mín reyndist vera 0,123 M í staðinn fyrir 0,05 M en það reddaðist, ég þurfti bara að vera þeim mun nákvæmari þegar ég var að títra nikótínið (speaking nerdish, yes, I know, my precious).
Allavega, þessu var ég að vesenast í frá 8:15 - 12:40 án þess að taka eina einustu pásu eða setjast niður, var heldur ekki búin að borða neitt (var með nesti með mér en hafði ekki tíma til að borða það, þurfti að klára þetta drasl).
Þetta hófst þó allt saman og tókst mér að finna massaprósentu nikótíns í píputóbakinu Prince Albert með mikilli prýði.
Svo hafði ég nú hugsað mér að nota daginn og reka nokkur erindi, t.d. endurnýja ökuskírteinið mitt (hef ætlað að gera það síðan í ágúst) og fleira skemmtilegt en þegar ég kom út og sá að rigningin hafði aukist frekar en hitt þá langaði mig voða lítið að fara að þramma út um borg og bý í skítblautum sokkum að reka einhver heimsk erindi.
Þess vegna fór ég bara heim, þurrkaði marineruðu tærnar mínar og fór í dúnsokka (úff hvað það var gott!) og var síðan svo aðframkomin af þreytu að ég lagði mig í klukkutíma áður en ég fór til læknis. Þar borgaði ég 1100 kall fyrir að láta segja mér að ég væri ekkert lasin og ég ætti bara að drekka te og ganga með trefil, en þetta tvennt geri ég hvort sem er alltaf.
Fátt annað hef ég nú gert í dag, en þótt ótrúlegt sé er ég ekki í neitt voðalega vondu skapi. Er það einkum tvennu að þakka: Ben & Jerry's Makin' Whoopie Pie (Chocolate Ice Cream with a Classic Whoopie Pie Mixture of Marshmallow & Devil's Food Cookies) og tímaritinu Fálkanum (,,vikublað með myndum").
Fálkinn krefst kannski frekari skýringar: Núna höfum við Atli undir höndum 5 gríðarstórar og gamlar bækur sem afi hans átti og innihalda þær árganga 1930-1939 af Fálkanum. Fálkinn var eins konar Séð & Heyrt sinna tíma, slúður af kóngafólki og kvikmyndastjörnum, dálkurinn ,,Fyrir kvenfólkið" (prjónauppskriftir, ,,nýjazta tízkan frá París" og upplýsingar um ,,skyldur konunnar"), skrítlur (Adamson, Ferdinand, Litli & Stóri) og uppáhaldið mitt, furðufréttadálkurinn ,,Jeg er alveg hissa".
Svo eru auglýsingarnar alveg kapítuli út af fyrir sig, alls konar lífselixírar og nútímatól hafin upp til skýjanna á smekklegan hátt...
Auðvitað kemur ekkert í staðinn fyrir að sjá þessa dýrð í sínu upprunalega veldi en lúkum vér hér færslu þessari með nokkrum gullmolum úr Fálkanum.
Auglýsingar
,,IDOZAN er heimsfrægt járnmeðal við BLÓÐLEYSI og þar af lútandi þreytu og taugaveiklun.
Fæst í lyfjabúðunum."
,,Þú ert þreyttur, daufur og dapur í skapi. -Þetta er vissulega í sambandi við slit tauganna. Sellur líkamans þarfnast endurnýjunar. Þú þarft strax að byrja að nota Fersól. -Þá færðu nýjan lífskrapt, sem endurlífgar líkamsstarfsemina.
Fersól herðir taugarnar, styrkir hjartað og eykur líkamlegan krapt og lífsmagn.
Laugavegsapótek"
,,Notið þjer ,,ÓÐINN" teikniblýantinn?"
Mest spiluðu danslögin árið 1930:
En kärleksnatt i Barcelona
Det var paa Frederiksberg
Tjener, Tjener, kom med Öllet (tileinkað öllum Lybbum in the house)
Ever so goosey
Lailas Kærlighedssang
Jeg býð yður rós
Bölgevalsen
Saa til Sös
Skippervalsen
Jeg er alveg hissa
,,Í Berlín búa 50 svertingjar og í öllu Þýskalandi á að giska 200. Flestir þeirra eru íþróttamenn, söngvarar, leikarar eða þessháttar. Nú er í ráði að koma upp sjerstöku leikhúsi, þar sem svertingjar eingöngu sýni leikrit, samin af svertingjum og leiki lög samin af þeim. Í öllum stórborgum eru svertingjar nú að komast til vegs og virðingar."
,,Í New York giftist kona nýlega í þrettánda skiftið!"
,,37 ára gömul kona í Ameríku hefur krafist skilnaðar frá manni sínum og gefur upp sem ástæðu fyrir skilnaðinum, að maðurinn heimti að hún nuddi hann á bakinu, eftir að hann hefir laugað sig, raki hann og bruggi handa honum öl." (Hmmm, hvern minnir þetta mig á?)
Já, það er hreinlega ekki hægt að vera í vondu skapi meðan maður les þvílíka dýrð. Verst hvað þetta freistar manns mun meira en námsbækurnar ;)
<< Home