Það höfðum næturgest hérna á Vesturgötunni hjá okkur í nótt. Hann heitir Fróði og við fundum hann í reiðileysi niðri í bæ þegar við vorum á leiðinni heim eftir ágætis skrall. Við hringdum í símanúmer sem Fróði bar með sér og svaraði þar maður sem sagðist sækja hann til okkar í fyrramálið. Við þurftum hálfpartinn að halda á honum heim og það var erfiðara en það leit út fyrir að vera, því þó hann væri lítill seig hann í. Þegar heim kom þáði hann pulsu og vatnssopa með miklum þökkum, en vildi svo helst fylgja okkur eftir hvert fótmál og endaði á því að sofna í óhreinataus-hrúgunni okkar inni í svefnherbergi. Hann hraut hátt.
Um kl. 7 í morgun vildi hann svo ólmur komast út að pissa og fór ég þá með hann niður í bakgarð þar sem hann meig utan í allskonar plöntur, sæll og glaður.
Svo um kl. 10 kom eigandinn og sótti litla sæta Cavalier King Charles Spaniel hundinn sinn...
<< Home