mánudagur, júní 09, 2003

Píslarsaga Elínar

Hér með skal útskýrt hvers vegna ég hef ekki bloggað í viku.

Hófst þetta með því að á þriðjudaginn síðasta fór ég til háls-, nef- og eyrnalæknis (hne-læknis) og sagði farir mínar ekki sléttar, enda ekki eðlilegt að fá hálsbólgu 7-8 sinnum á ári í 10 ár! Hann kíkti upp í mig og sá á 5 sekúndum: ,,jájá, þetta þarf að taka". Þá varð ég soldið glöð enda hefur mig langað til að losna við þessa helv. hálskirtla síðan ég var 12 ára. En svo sagði hann mér að það væri venjulega 6-8 vikna bið eftir svona aðgerð, en eini tíminn sem ég hefði haft í sumar til að fara í aðgerð væri vikan 9.-16. júní. Ég bað lækninn samt um að reyna að redda þessu ef hann mögulega gæti, hann sagðist ætla að gera það en það væri víst frekar ólíklegt.
Því fór ég heim dauf í bragði og sá fram á að ég þyrfti að fresta þessu fram að jólafríi eða eitthvað.

En viti menn! Það var hringt í mig kl. 8 á fimmtudagsmorguninn og ég spurð hvort ég gæti komið í aðgerð sama dag! Þá tók við allskonar stress og reddingar varðandi vinnuna, það reddaðist, ég var komin upp á landspítalann, fossvogi, um hádegi og fór í aðgerðina um 4-leytið. Ég var viðbjóðslega stressuð og hrædd, en lifði það þó af með góðri hjálp bókarinnar Zen Flesh, Zen Bones sem er full af litlum heimspekilegum zen-búddisma sögum. Var eina nótt á spítalanum, það var ömurlegt, var á 5 manna stofu og þar af var ein kona með hræðilegan hósta (aumingja hún, en það er ekki gaman að láta halda fyrir sér vöku heila nótt, og milli þess sem hún hóstaði þá hraut hún)...
Mig langaði reyndar soldið til að stela stóru flottu sjúkrahúsnærbuxunum mínum... en ekki jafn mikið og mig langaði í afmælið hennar Ragnheiðar. Leiðinlegt að missa af því.

Eftir þetta hefur mér basically liðið illa, þetta er viðbjóðslega sár verkur sem leiðir lengst niðrúr hálsi og alla leið uppí eyru og ég myndi ekki gera mikið annað en liggja uppi í rúmi og gráta ef ég hefði ekki góða hjálp Parkódín forte og Voltaren Rapid, sem gerir þetta aðeins bærilegra.

Er þó búin að horfa á nokkrar góðar myndir: Carlito's Way, The Shawshank Redemption og Jalla! Jalla!, auk Simpsons, Friends og Teddy Ruxpin...
Ég verð þó vonandi búin að jafna mig alveg fyrir 17. júní, þegar ég fer til Portúgal...
Já, þetta er svei mér undarlegt sumarfrí.